Skip to Content

Um Helenu

Helena Morland artist

Listsköpun Helenu er svo margbreytileg að sjaldgæft má heita, og takmarkast raunar ekki við myndlist. Hún málar málverk, yrkir ljóð, býr til höggmyndir, hannar skartgripi, setur upp innsetningar, og vinnur verk með ljósum jafnt sem hljóði.

Hún gerir ekki upp á milli efna við listsköpun sína, og vinnur jöfnum höndum og af jafn mikilli list með silfur, brons, ál, stál, steypu, plast og gler.

Hið einstaka íslenska landslag hefur haft víðtæk áhrif á listsköpun Helenu að undanförnu. Er hún fluttist til Íslands fann hún hjá sér þörf og innblástur til að gerbylta viðhorfi sínu til málaralistar. Í stað þess að gera greinarmun á mismunandi aðferðum, svo sem málverki annars vegar og höggmyndalist hins vegar, þá blandar hún nú öllu saman í suðupotti frjórra hugmynda.

Verk hennar eru nú í senn málverk og höggmyndir og með því hefur hún í raun skapað eitthvað alveg nýtt. Dýptin í verkum hennar er ekki blekking, heldur sönn og einstök, svo sem sjá má í merkilegum hámyndum hennar úr áli. Með því hefur hún frelsað málverkið undan hinu tilbúna flata yfirborði sem getur einungis gefið hugmynd um formin í verkinu. Og formin sjálf standa nú fyrir sínu.

Helena telur að þessi nýja aðferð sé hin eina rétta til að birta skynjun hennar á íslenskri náttúru.

Þótt Helena líti nú á Ísland sem heimili sitt, þá fer ekki milli mála að annað heimili á hún í verkum sínum.